Pleasure, pleasure!

30.9.02

Hér er meira af þessu pie rugli.

29.9.02

Það sem fólki dettur í hug að gera. Mér finnst þetta allavega nokkuð gott :)



Finnið fimm atriði sem ekki eru eins á báðum myndunum.

Var vakinn upp af dauðskelkaðri móður minni í morgun til þessa að heyja hetjulega baráttu við geitung. Hann steinlá undir lokin (með hjálp frá mömmu) og mér finnst ég vera hönk!

28.9.02

Það er orðið svo langt síðan að ég hef birt mynd af hinum fjallmyndarlega íþróttamannslega vaxna Hauki að ég bara hálfskammast mín. Þessi einstaklega góða mynd af honum var tekin úti á Krít seinasta sumar og finnst mér þokkinn og gríðarlega greind hans endurspeglast hér ákaflega vel.

Svo skrifaði hann líka nýtt ljóð:

Flutningar

Hvar er blíð umhyggja æsku minnar?
Morgunknús ei meir.
Ég er í stríði í dal óttans.
Snerti mig.
Ekkert er eins.
Ó móðir mín.
Gakk inn á mig í seinasta sinn!

Haukur Gunnarsson




Mér finnst nú hálfóhugnalegt að vita til þess að mamma Siggu lesi blogg vina hennar. Þá eru líkurnar nokkuð góðar að hún hafi lesið mína síðu og finnist ég því algjör sóða og subbupungur. Ég hef ekki góða reynslu af síðunni minni og foreldrum vina minna. Það er heldur eldfim blanda sem meðal annars hrakti sir MacHumphry héðan.

26.9.02

Mig henti vont-gott í gær. Ég var alveg þvílíkt duglegur að lesa og reikna lífefnafræðina þegar hún Sunnus hringdi í mig og bauð mér á kaffihús með sér og Huldu. Þeir sem þykjast þekkja mig ættu ekki að vera lengi að giska á hvort ég hafi farið og þá hvað ég fékk mér og hvursu mikið af því. En jæja. . . þá er best að fara að huga að því að byrja að pæla í að fara í skólann.

23.9.02

Jess!
Nú er nýtt tímabil gleði og hamingju upprunnið hér í Þrastarhólunum. Ég hef fundið tilgang lífsins á ný enda fimmta sería Survivor hafin á Skjá einum. Ég veit að ég er geðveikt glataður gaur að horfa á svona vitleysu en mér er alveg sama.

Þessi sería leggst svo alveg ágætlega í mig fyrir utan þessa krónísku þörf Bandaríkjamanna fyrir að þurfa að faðma hvorn annan alveg hægri vinstri. Einnig fyndist mér það ekki út í hött að dæla geðlyfjum í kellingarnar því þær vældu alveg endalaust í þættinum. Þetta er alveg merkilegt árátta og sennilega stórhættuleg því mikil hætta er á ofþornun þarna í Tælandi og því betra að vera ekki að væla vatninu út úr sér. Annars sé ég nú Sigga fyrir mér þarna vælandi eins og sjö ára stelpa yfir öllu mögulegu.

Svar við fyrirspurn í gestabók
Indælu stökkmúsinni minni var lógað í fyrra sökum ólæknandi geðsýki sem hana greip fljótlega eftir að ég fékk hana í afmælisgjöf. Óvildarmenn mínir tengja sjúkdóm hennar við illa framkomu mína gagnvart henni en ég vísa öllu slíku á bug. Unný fékk gott uppeldi frá mér og ást og umhyggju sem allir minnimáttar eiga skilið. Mér varð þó fljótlega um og ó þegar ég tók eftir því að hún var hafin handa við að éta húsið sitt sem var úr frauðplasti og auk þess vann hún markvisst að því að sópa saginu út úr búrinu á vel þrifin gólf móður minnar. Ég reyndi að tala við hana en allt gekk fyrir ekki. Kjánaskapurinn hélt áfram og geðsýkin jókst og því var ekkert annað að gera í stöðunni en að lóga henni.

Ég vil nota tækifærið og minna músavini á minningarsjóðinn sem stofnaður var eftir sorglegt andlát Unnýjar. Reikningsnúmerið er: 319-26-4910

22.9.02

Ég var að koma heim af The Bourne identity sem var hin þokkalegasta afþreying. Hún var svo sem engin snilld en það getur þó verið að ömurlegur félagsskapurinn sem ég var í hafi dregið hana niður.

21.9.02

Mér finnst andlegi munurinn á mér og Sigga sjást einstaklega vel hér á þessari mynd. Hún var tekin í gærkvöldi þegar ég, hann og Sigga héngum saman á kaffihúsi ræðandi um geðveikt merkilega og skemmtilega hluti. Hinar myndirnar má sjá hér.

17.9.02

Elskulegir gamlir stærðfræðideildar fyrrverandi og þá hugsanlega núverandi Verzlingar!

Ég er í smá bobba. Ég er búinn að týna hinum geysigóðu tölvugerðu líffræði glósum sem gengu á milli manna í stúdentsprófunum 2001. Þeir sem eiga þær mega alveg endilega vera svo elskulegir að senda mér eintak. Allir þeir sem ekki senda mér þær geta átt von á einhverjum leiðindum.

16.9.02

Pabbi er án efa gull af manni dagsins í dag fyrir að leyfa mér að hafa bílinn til fjögur. Þar með gerir hann mér lífið mun auðveldara á þessum degi dauðans þar sem ég þarf að vera mættur klukkan átta í skólann. Hann forðar mér frá löngum strætóferðum og gefur mér kost á að komast heim og leggja mig vel fyrir verklegt seinna í dag.

14.9.02

Fór á nýjustu mynd Baltasar Kormáks, Hafið, áðan með Begga og fannst hún bara þrusufín. Allir leikararnir fóru á kostum og mæli ég með þessari mynd.. Ég hefði þó ekki haft neitt á móti því að vera í skemmtilegri félagsskap.

13.9.02

Fökk!
Ég hata dyrnar framan á aðalbyggingu háskólans. Þær eiga að vera eitthvað geðveikt kúl, rafdrifnar og flottar, en satt best að segja sökka þær! Ég kom þar við í gær og átti í talsverðum erfiðleikum með að komast inn og ýtti fast og vel á þær sem virkaði á endanum. Þegar ég svo ætlaði út aftur gekk þetta ekki eins vel. Vitandi hvað þær voru leiðinlegar djöflaðist ég á þeim í sennilega fimm mínútur áður en ég áttaði mig á því að búið var að læsa byggingunni. Mér leið eins og mongói og álpaðist út að aftan.

Þá hefur Sigga sett inn myndirnar úr ítölsku stemmningunni hjá Brynjari á netið. Hún keypti sér einmitt digital myndavél á útsölu á Amazon.co.uk um daginn með þvílíkum afslætti um daginn og lét mig ekki vita. Henni verður það seint fyrirgefið.

Hér til hægri sést Brynjar viðbjóður og pizzan sem hann bjó til handa okkur. Hann er alveg merkilega ógeðslegur.

12.9.02

Ég heyrði það útundan mér í dag að Siggi sé að pæla í því að breyta um eftirnafn. Ég veit reyndar ekki nægilega mikið um málið en bendi fólki á að tala við Magnús sem með kænsku komst að fyriráætlunum Sigga.

10.9.02

Ég benti Hauki á það áðan að hann ætti sennilega góða möguleika á að verða dansari Háskólakórsins en mér fannst sem honum litist ekki neitt vel á það. Hann þarf ekkert að vera feiminn við þetta því hann þekkir þrjá kórmeðlimi. Hann yrði glæsilegur á sviði dansandi frumsanda dansa við kórtónlist. Ég hvet ykkur því til að ræða þetta við hann.

8.9.02

Þetta er frekar súrt grín sem hann Beggi benti mér á um daginn. Ég, pabbi og Snorri erum búnir að hlæja nokkuð að þessu undanfarið. Algjör steik.

Elephants, yeah!

5.9.02

Ég er búinn að sjá ljósið! Magnús Ingi Einarsson ræddi við alþjóð fyrir stuttu og mikil var spekin:

Það er erfitt að spila á móti liði sem liggur með nánast alla sína menn í og við vítateiginn og einhvern veginn náðum við ekki að leysa þetta upp hjá þeim. Við fengum færi til að gera út um leikinn en heppnin var ekki með okkur frekar en í leiknum við KA á dögunum

Það er ekki nóg með að lífsspekin drjúpi af hverju orði heldur er vald hans á íslenskunni með ólíkindum. Maður er hálf vankaður eftir lestur þessa magnaða texta.

3.9.02

Mikil ósköp
Ég tók tenglasafnið mitt í gegn rétt í þessu. Þar ber kannski hæst að nýjum flokki var bætt við. Í þeim flokki er hvað mest niðurlægjandi að hanga og endist sú skömm í fimm ættliði út frá viðkomandi viðbjóði. Það ætti því ekki að koma fólki á óvart að í óæðsta tenglinum húkir Siggi aumingi sem hætt hefur að blogga sjálfum sér til skammar. Ég bætti einnig við tveimur síðum sem vinnufélagar mínir komu sér upp í sumar. Þær setti ég þó í óæðri tengla þar sem útlitið hjá Ólöfu er ekki upp á marga fiska og Katrín hefur verið frekar óiðin við sitt bloggerí. Ef bót verður á máli munu þær að sjálfsögðu flytjast upp um flokk.

Var að koma heim úr verklegri grasafræði ásamt Handsome sem fram fór í Öskjuhlíðinni í ömurlegu veðri. Við gengum þarna um vitandi að þetta væri uppáhalds nauðgstaður Sigga og var manni frekar órótt þarna þrátt fyrir að vera í stórum hópi. Allstaðar fannst manni bregða fyrir milli trjánna bláum súpermannbúningi og rauðum kolli ásamt más hljóðum sem sennilega hefur þó bara verið vindurinn. Ég myndi allavega ekki vilja ganga þarna um einn.

Annars skráðum við Haukur okkur í vísindaferðina á föstudaginn og hvet ég ykkur verkfræðiviðbjóðina til að gera slíkt hið sama.

1.9.02

Er rétt ólagður af stað í vinnuna á seinustu vaktina mína í sumar á bílnum sem foreldrar mínir í miskunnsemi sinni (eða svefnvímu) lánuðu mér. Það er allt að gerast í dag. Dregið verður í fyrsta skipti í hinum árlega léttvínspotti sem ég er viss um að vinna og þar sem við erum fjögur sem hættum að vinna vegna skóla í dag verður slegið upp veislu til að fagna því. Svo er það bara líffræðin á morgun.

Að lokum vil ég vara ykkur við honum Hauki. Hann er í einhverri tilvistarkreppu (sjá mynd hér að neðan) sem eðlilegt er enda nýfluttur að heiman. Daglegt móðurknús er nú úr sögunni.

Og já. . . ég veit nú reyndar ekki hverjir lesa alla leið hingað niður, en allavega. . . þeir sem vilja koma í bíó á Signs í kvöld skulu hafa samband við mig. Ég met það svo í ró og næði hvort ég vilji fara með viðkomandi.